Mamma mín er einhverskonar töframaður í eldhúsinu, það er allt gott sem hún gerir. Hún er ekki mikið í einhverjum flóknum og fansí uppskriftum, heldur er þetta oft einhvað sem kemur beint upp úr hennar höfði, svona ekta mömmu matur. Eitt af því besta sem ég fæ hjá henni eru kleinur. Ég er kannski ekki alveg hlutlaus en þetta eru bestu kleinur í heimi. Ég fékk leyfi frá mömmu að deila uppskriftinni með ykkur.
2kg Hveiti
2 1/2 Bolli sykur
11tsk Lyftiduft
1tsk Hjartasalt
250gr Smjörlíki, mjúkt, við stofuhita
4stk Egg
1 1/2 Glas kardimommudropar, smá vanilludropar
1L Súrumjólk
Ég byrja á að setja öll þurrefni saman, bara beint á borðið.
Svo bý ég til einskonar holu í miðjunni.
Ég set rest af hráefnum í holuna og klíp allt saman.
Ég hnoða deigið smá og tek svo lítinn part í einu til að fletja út.
Deigið er sirka hálfur cm á þykkt, ég bý til svona tígla og geri smá gat í miðjuna.
Svo sný ég bara upp á tíglana og móta þessar fínu kleinur.
Þeim er svo skellt í pottinn í steikingu.
Ég er ekki með neinn sérstakan tíma, en ég steiki þær þar til þær verða svona fallega brúnar.
Þessi uppskrift gefur heilan helling af kleinum þannig að ég skipti þessu niður í nokkra poka og set í frystinn.